145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

tilkynning forsætisráðherra um þingrof og kosningar.

[13:32]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Forseti Íslands hefur að tillögu minni ritað svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Forsætisráðherra hefur tjáð mér, að samhljómur sé um það á milli flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi, samanber nýsamþykkt lög nr. 89/2016, um breytingar á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, að flýta almennum kosningum til Alþingis.

Samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með vísan til 24. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, eins og henni var breytt með 5. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 56/1991, sbr. 21. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, er með skírskotun til framanritaðs ákveðið að þing verði rofið 29. október 2016 og að almennar kosningar til Alþingis fari fram sama dag.

 

Gjört í Reykjavík, 20. september 2016.

Guðni Th. Jóhannesson.

 

____________________

Sigurður Ingi Jóhannsson.

 

Forsetabréf um þingrof og almennar kosningar til Alþingis.“

Virðulegi forseti. Þann 8. september síðastliðinn samþykkti Alþingi lög um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Með lögunum var yfirstandandi löggjafarþing, 145. löggjafarþing, framlengt til 29. október næstkomandi. Framlenging löggjafarþingsins tók mið af þeim áformum að alþingiskosningar fari fram þann dag. Með því forsetabréfi sem ég hef hér lesið eru þau áform lögformlega staðfest.

Ég árétta að þingið getur starfað áfram þó þingrof hafi verið tilkynnt enda halda alþingismenn umboði sínu til kjördags, samanber 24. gr. stjórnarskrárinnar.

Eins og jafnan í aðdraganda kosninga geri ég þó ráð fyrir að þingfundum verði frestað með hæfilegum fyrirvara fyrir kjördag, samanber nýja starfsáætlun Alþingis og önnur fordæmi, enda hafi Alþingi náð að ljúka afgreiðslu þeirra mála sem hér fyrir liggja.