145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA, hélt áhugavert málþing í morgun þar sem greint var frá niðurstöðum nýrrar rannsóknar á hlut kynjanna í fjölmiðlum. Þar kom fram að í 67% tilfella eru viðmælendur ljósvakamiðla karlar, 33% konur. Þótti mönnum það allnokkur framför frá síðustu rannsókn þar sem hlutur kvenna hafði aukist um heil 3%. Nú er árið 2016 og enn erum við með þessi hlutföll, þar sem Íslendingar standa að vísu mörgum öðrum þjóðum framar, en samt sem áður vinnst þetta svo hægt.

Á fundinum var rætt um leiðir til að takast á við þessa rótgrónu mismunun. Ég verð að segja að mér finnst, í ljósi þess að það eru stjórnmálamenn og þeir sem starfa í stjórnmálum sem eru langalgengustu viðmælendur fjölmiðla þegar kemur að fréttum og fréttatengdu efni, að þar sé ábyrgð stjórnmálaflokkanna mjög mikil ásamt ábyrgð fjölmiðlanna. Við fáum oft að heyra að það skipti máli að konur taki sig á, að konur segi oftar já, að konur taki frumkvæði. En það hafa konur svo sannarlega gert. Það sem þarf að horfa til er hin kerfislæga mismunun þar sem stjórnmálaflokkarnir verða að taka ábyrgð á því að tryggja jafnan hlut kynjanna. Og fjölmiðlar verða líka að taka þá ábyrgð að endurspegla þá staðreynd að konur eru helmingur allra Íslendinga.

Þetta mál, þetta rótgróna misrétti, verður aldrei leyst með því að benda á einstakar konur og koma með afsakanir eins og enn heyrast að konur séu að skjóti sér undan því að mæta í viðtöl út af því að þær séu að sinna börnum eða bakstri. Það er bara löngu liðin tíð, herra forseti. Það á ekki við um þær konur sem eru starfandi í stjórnmálum, get ég bara fullvissað alla aðila um. Það eru stofnanir samfélagsins sem þurfa að taka sig á og þar bera stjórnmálaflokkarnir ekki síður ábyrgð en fjölmiðlarnir.


Efnisorð er vísa í ræðuna