145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[14:52]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna sem er mikilvæg og hefur margt gagnlegt komið fram. Ég vil byrja á því að fagna því sem fram kom í orðum hæstv. menntamálaráðherra, að til standi að skipa þverpólitískan starfshóp sem fari yfir starfsumhverfi fjölmiðla og komi þá væntanlega með tillögur um endurskoðun fjölmiðlalaga. Mig langar að beina þeirri spurningu til ráðherra hver sé fyrirhuguð aðkoma fjölmiðlanna sjálfra að þeirri vinnu. Er ekki mikilvægt að koma á viðvarandi samtali um starfsumhverfið? Það er eitt varðandi starfsumhverfi fjölmiðla sem ég held að skipti miklu máli en hefur ekki komið fram í þessari umræðu núna, þ.e. möguleikar til dreifingar fjölmiðla. Eitt er dreifikerfi ljósvakamiðlanna. Það er mikilvægt að fjölmiðlar geti náð til allra landsmanna annars vegar og hins vegar að allir ljósvakamiðlar hafi í rauninni sömu tækifæri til að dreifa dagskrá sinni. Það er eitt af því sem hlýtur að koma til skoðunar í starfshópnum.

Hins vegar er dreifing prentaðs efnis, eins og dagblaða og tímarita, sem farið hefur mjög mikið aftur með breytingu á póstþjónustu, breytingu á lögum um almenningssamgöngur þar sem erfiðara er að koma pósti og pökkum eftir fjölbreyttum leiðum, þannig að ég hef til að mynda gefist upp á að vera áskrifandi að dagblaði á mínu heimili úti á landi. Þannig er um marga og þeir sem búa í mesta dreifbýlinu fá kannski dagblöðin tvisvar í viku, í annað skiptið fjögur dagblöð (Forseti hringir.) og í hitt skiptið þrjú.