145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[16:14]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alltaf gott að tala við hæstv. ráðherra. Ég hef átt mjög góð samskipti við hana í gegnum tíðina. En ég get alveg tekið undir að ég trúi því ekki að tillagan verði felld. Það eru engin rök og enginn hefur komið hér fram og sagt hvers vegna ekki ætti að samþykkja valkvæðu bókunina. Mér fróðari menn um þessi mál hafa bent á að það kostar ríkið ekki neitt. Það fylgi nákvæmlega sömu reglu og þegar samningurinn verður fullgiltur. Við erum náttúrlega ekki búin að ganga frá öllum lagabreytingum sem fara þarf í, en við erum samt sem áður búin að ákveða að fullgilda samninginn og flöggum því að við munum vinna að því að breyta lögum. En ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, auðvitað eigum við bara að reyna að sammælast um að samþykkja þetta og sýna í verki að við viljum standa fullkomlega með réttindum þessa fólks. Við höfum dregið það í níu ár að fullgilda samninginn. Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra komi hér upp og skýri hvers vegna valkvæða bókunin er ekki með í þetta skiptið.