145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[22:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sé efni í aðra BA-ritgerð. Ég treysti mér ekki til að svara þessu algjörlega í einni sviphendingu. Ég tel að það þurfi að skoða miklu betur til þess að ég geti gefið hv. þingmanni svar sem væri honum og mér boðlegt. (Gripið fram í.)Ég tel samt sem áður að það þyrfti við allar aðstæður með einhverjum hætti að gera það algjörlega skýrt að við hefðum úrræði til að grípa til sömu ráða og við gerðum 2008. Hv. þingmaður man að það var umdeilt alls staðar utan Íslands, líka hjá þeim sem um síðir sveigðust til stuðnings við þá leið og jafnvel tóku hana upp. En ég minni á það að einkum og sér í lagi var það önnur hinna þjóðanna, EES/EFTA-þjóðanna innan ESA, þ.e. Noregur, sem var þessu heldur andsnúin. Ég hef hér vísað í forstjóra ESA. Við skulum ekki gleyma því að á sínum tíma samþykkti Stórþingið sérstök lög um framlög til AGS til að standa undir gjaldeyrislánum til okkar sem voru ansi þungum skilyrðum bundin, sem endurspegluðu ljóslega hvert þeirra viðhorf var þá. En ég verð að segja það við þann mann sem tekur mig hér upp á prófi að ég þyrfti meiri umhugsunartíma en tvær mínútur til að gefa svar við þessu.