145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

ákvæði stjórnarskrár og framsal valds.

[10:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er hugsanlegt að hæstv. ráðherra hafi ekki hlustað nægilega vel á mál mitt. Það sem ég er að leggja áherslu á er að það er komin algjörlega ný staða í málinu. Það sem hefur gerst er það að annar þeirra tveggja fræðimanna sem lagði til þá leið sem var útfærð af hálfu ríkisstjórnarinnar kemur núna fram og segir að sú útfærsla sé ekki nægileg. Hún tvítekur það í fjölmiðlum í gær að þetta rúmist ekki innan stjórnarskrárinnar. Ætlar hæstv. ráðherra að koma hingað og segja að það sé í lagi að böðlast áfram með málið og þar með að leggja blessun sína yfir það að framkvæmdarvaldið gangi á skítugum skóm yfir stjórnarskrána? Hefur ekki hæstv. ráðherra svarið eið að stjórnarskránni?

Hæstv. ráðherra gat ekki upplýst um neinn skaða sem hlýst af því að geyma þetta mál fram yfir helgina til að utanríkismálanefnd og eftir atvikum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fái að minnsta kosti tóm til þess að skoða þessar nýju upplýsingar og fái fleiri til að staðfesta þær eða hrekja. Mér finnst ekki koma til (Forseti hringir.) mála að við samþykkjum svona mál þegar vafi leikur á þessu og þegar einn (Forseti hringir.) helsti fræðimaður landsins um stjórnarskrána segir að verið sé að brjóta hana.