145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

[12:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er góð umræða og þörf og kemur til með að vera þörf, held ég, á komandi árum, því að eins og kom fram áðan er í síbreytilegu umhverfi, þar sem verið er að færa verkefni til sveitarfélaganna, nauðsynlegt að skoða það sem hér er til umfjöllunar, þ.e. skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga. Á fjármálaráðstefnunni í morgun hjó ég eftir því að hæstv. ráðherra sagði að það ætti að vera hægt að leysa þetta án nýrra tekjustofna. Þá spyr ég hvaða tekjustofna hann sjái helst fyrir sér að hækka. Það hefur komið fram hjá sveitarfélögunum að til dæmis ætti að hækka útsvarið til þess til að mynda að standa undir hinum mikla málaflokki sem varðar fatlað fólk. Við samþykktum líka á dögunum sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem snýr að fötluðu fólki, sem betur fer, og það eru gleðitíðindi. En það hefur auðvitað aukinn kostnað í för með sér, ekki bara fyrir ríki heldur líka fyrir sveitarfélög.

Sveitarfélögin hafa líka óskað eftir því að öll mannvirki verði háð fasteignamati, þ.e. að þær undanþágur sem nú eru í gildi verði afnumdar, og þau fái líka hlutdeild í tekjum af raforkuframleiðslu, t.d. fasteignaskatt af tilheyrandi mannvirkjum. Ég spyr ráðherra hvað honum finnist um það.

Það kom einnig fram hjá formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga í morgun að honum fyndist eðlilegt að sveitarfélögin fengju tekjur af umferð í samræmi við útgjöld þeirra til samgöngukerfisins. Ég fór reyndar áður en samtali á milli þeirra lauk og því langar mig að spyrja hvort eitthvað hafi komið út úr því.

Af því að ráðherrann nefndi sjálfur fasteignagjöldin, að það mundi nú skila sér í auknum tekjum sem og útsvarið, þá er uppbyggingin auðvitað fyrst og fremst á stórhöfuðborgarsvæðinu. Sú aukning í ferðamannaþjónustu sem hefur orðið úti á landsbyggðinni er ekki fólgin í miklum (Forseti hringir.) byggingum heldur meira í fjölgun starfa og því miður eru ferðamannastörfin láglaunastörf.