145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:03]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að ef þetta mál skarast við eitthvert annað mál er það ekki gott. En mér finnst við hljóta að geta hugsað í lausnum. Ég hef aldrei skilið af hverju má ekki halda sameiginlega nefndafundi og vera þá svolítið opin gagnvart því t.d. ef við tökum þetta mál fyrir að velferðarnefnd þá boðið á fundi og þar fram eftir götunum. Ég held að við þurfum bara að vera opin fyrir því. Við höfum alveg gert það í tengslum við fjárlögin þegar málefnin heyra undir aðrar nefndir.

Ég veit svo sem ekki enn þá hvernig þetta mun bitna á fólki. Þess vegna munum við kalla eftir raunverulegum dæmum. En ég get alveg trúað að það sé eitthvað til í því að þetta kerfi geti komið verr við þá sem fara seinna út á vinnumarkaðinn, fólk sem er lengur í námi, sem eru í dag konur, jafnvel í meiri hluta, kvennastéttir, hjúkrunarfræðingar og aðrar slíkar stéttir. Það þarf að skoða hvernig það kemur við þær stéttir. Það má þá að sama skapi segja, eins og þingmaður talar um, að þetta geti stangast á við mál sem eru í velferðarnefnd. Það er líka verið er að ræða Lánasjóð íslenskra námsmanna og hvernig haga eigi öllu varðandi námsmenn. Það getur vel verið að það skarist líka einhvern veginn við þetta mál. Þetta er risastórt. En mér finnst þetta áhugavert. Ég er svo ánægð að þetta sé að minnsta kosti komið á þennan stað. Málið hefur lengi verið í bígerð og gríðarlega mikil vinna þarna á bak við. Við þurfum að horfa á þetta með mjög gagnrýnum augum og reyna að bæta það. En ég verð að viðurkenna að ég held að það þurfi að gera kerfisbreytingar á lífeyrissjóðakerfinu. Það er í raun ótrúlega gott að ríkið geti núna sett 100 milljarða inn í kerfið. Það er ekkert víst að það verði hægt (Forseti hringir.) eftir sjö ár þannig að við getum ekki þráttað um það í mörg ár. (Forseti hringir.) En auðvitað verðum við að tryggja að þetta sé gott mál þegar við sleppum því út úr þinginu.