145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ein leið til að takast á við vandann hjá einhverjum af þessum hópum. Annað sem mér hefur dottið í hug er að einstaklingar sem fara kannski seint að byggja upp réttindi þurfi einfaldlega að byggja þau upp hraðar og leggja meira til. Á móti kemur að menn hafa ekki tímann með sér í liði sem er svo mikilvægt fyrir langtímafjármálagjörninga eins og að byggja upp lífeyrisréttindi eða það mundi ég halda.

Ég er líka alveg sammála hv. þingmanni með að mér finnst óþægilegt hvernig þessi málaflokkur fer til mismunandi nefnda. Ég talaði reyndar aðeins um það áðan líka og fleiri haft nefnt það að málið fari til hv. fjárlaganefndar á meðan almannatryggingamálið fer til hv. velferðarnefndar og síðan er enn annað mál sem er líka tengt þessu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, nefnilega það sem gefur sumu fólki færi á nýta greiðslur sínar til að borga inn á húsnæðislán. Það skiptir líka máli í þessu sambandi, sérstaklega ef við erum að fara einhverjar nýstárlegar leiðir til að byggja upp fyrir framtíðina og jafnvel þó að um sé að ræða húsnæði sem við þurfum öll þá kemur það samt sem áður málaflokknum við.

Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki hreinlega kominn tími á að í náinni framtíð verði þingnefnd sem fjalli um þetta málefni eitt og sér, þ.e. hvernig við bregðumst við því vandamáli að hópurinn sem er kominn yfir vinnualdur stækkar og slík vandamál verða svo einkennandi fyrir samfélagið í framtíðinni að það ætti í raun og veru að vera sérstök þingnefnd sem héldi utan um það og tækist á við það öllum stundum með ýmsum hætti. Mér sýnist þetta vera málaflokkur sem hefur svo marga anga að það sé ekki hægt að hafa þetta tætt út um allt Alþingi eins og raun ber vitni núna. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni finnst um það.