145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ætti kannski að leita til eigin formanns og þingflokksformanns til að geta svarað þeirri spurningu vegna þess að ástæðan fyrir því að hér mun ganga erfiðlega að klára mál er sú að það liggur engin forgangsröðun fyrir og hefur þó verið beðið nógu lengi eftir því, miklu lengur en þörf ætti að vera á.

Á þessu kjörtímabili hef ég tekið eftir því að ef tekið er til máls og stjórnarmeirihlutinn verður óþolinmóður þá byrjar hann jafnan að saka minni hlutann um málþóf, það kemur fyrir fyrr en síðar. Ég veit að það er ekki í gangi hér, (BN: Ég minntist ekki einu sinni á það.) nei, eins og ég segi, ég veit að það er ekki í gangi hér. Þá vek ég athygli á því að síðan í vor hefur þingið gengið með afbrigðum vel og allir eru sammála um það. Svo á lokametrunum þá er hent inn máli eftir mál, þar á meðal þetta. Þetta er kannski ekki stórt mál fyrir hv. þingmann Brynjar Níelsson sem er í 19 manna þingflokki og hefur nokkra ráðherra til að útskýra hlutina fyrir sér, fyrir utan auðvitað að hafa langa reynslu af bæði störfum og lífi, en það er einfaldlega aðstaða sem ekki allir þingmenn búa við, það er bara ekki þannig. Hér eru fjölmörg önnur mál til umræðu í velferðarnefnd og í allsherjar- og menntamálanefnd, þeim nefndum sem ég þarf að fylgjast með t.d., og það gerir að verkum að erfiðara er að taka fyrir öll mál og klára þau. Það er einfaldlega málaþunginn, sérstaklega á svo skömmum tíma. Það veldur þessum aðstæðum.

Ef við ætlum að klára þetta mál skellum því á forgangslista. En málið er bara að ég ákveð það ekki. Það er meiri hlutinn sem ákveður það. Við bíðum og bíðum eftir forgangsröðun. Ef við ætlum að klára þetta mál þá get ég réttlætt það að eyða þó nokkrum tíma í að setja mig inn í það. Ef við ætlum ekki að klára það þá sleppi ég því og eyði tíma mínum í eitthvað sem ég veit að muni klárast. Þessa forgangsröðun vantar og hún er á ábyrgð meiri hlutans, ekki minni hlutans. (BN: Þetta mál verður að klára.)