145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[12:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Vegna þess að hér ræða menn mikið um málsmeðferð er rétt að geta þess að allt frá 2012 hafa nefndir þingsins fylgst með framgangi málsins og þeim breytingum sem orðið hafa á því. Árið 2012 var lögð fram greinargerð af hálfu Stefáns Más Stefánssonar og Bjargar Thorarensen sem gerði mjög alvarlegar athugasemdir við þá lausn sem þá var á borðinu og vinna, bæði þingnefnda og stjórnvalda frá þeim tíma, hefur tekið mið af því að koma til móts við þau sjónarmið sem þá voru sett fram.

Það var m.a. á þeim grundvelli sem fjármálaráðherra Íslands tók þátt í því í október 2014 að gefa yfirlýsingu um í hvaða farveg málið færi og hver meginrammi þeirrar lausnar væri sem yrði ofan á. Það var á sameiginlegum fundi fjármálaráðherra EFTA og ESB-ríkjanna. Sú yfirlýsing (Forseti hringir.) hafði verið kynnt og rædd í nefndum (Forseti hringir.) þingsins á þeim tíma þannig að menn geta ekki látið eins og sú lausn (Forseti hringir.) sem nú liggur á borðinu komi þeim á óvart.