145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[12:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það, hættum að tala hana niður og hættum að tala það niður þegar lögmætur ágreiningur er um hvort brotið sé á 2. gr. stjórnarskrárinnar eða ekki. Það skiptir öllu máli.

Hér sagði hv. þm. Birgir Ármannsson frá áliti sem Björg Thorarensen og Stefán Már Stefánsson gáfu út á sínum tíma 2012. Þetta eru sömu einstaklingar og nú vara okkur við. Væntanlega eigum við þess vegna að taka mark á þeim. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Þessi umræða hefur verið uppi síðan alla vega 1992. Það var varað við þessu þá. Þetta er hluti af umræðunni um EES, hluti af umræðunni um ESB, þetta var í frumvarpi stjórnlagaráðs og í frumvarpi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þetta var í drögum að frumvarpi stjórnarskrárnefndar, var tekið þar út, þökk sé hv. Framsóknarflokki skilst mér. Þannig að það er rétt, þetta á ekki að koma neinum á óvart. Það ætti heldur ekki að koma neinum á óvart að það taki langan tíma að bera kennsl á síðasta hálmstráið, það tekur tíma fyrir frosk sem er soðinn að átta sig á að hann sé soðinn og þá er það orðið of seint. Fyrr eða síðar göngum við yfir þessa línu og þurfum að þekkja hana þegar hún á sér stað. Núna ætlum við að fara að greiða atkvæði og meiri hlutinn væntanlega (Forseti hringir.) með frumvarpi sem er búið að vara við að brjóti sennilega á 2. gr. stjórnarskrárinnar. Við þurfum bara tíma, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Talandi um að tala niður vinnu.