145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:56]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég hef ekki verið á Alþingi neitt rosalega lengi en það er farið að slaga hátt upp í átta ár. Á þeim tíma höfum við mjög reglulega rætt um framsal á fullveldi. Alltaf þegar það er rætt og kannað hafa þingmenn greitt atkvæði með því að fara inn á gráa svæðið með óþægindi innra með sér. Ég hef oft orðið vitni að því. Ég skil vel að það sé vilji hjá meiri hlutanum að greiða þessu máli leið í gegnum þingið, en ég hefði þó viljað að við mundum fá til okkar sérfræðinga til þess að ræða um möguleika á því að fresta málinu þangað til að búið er að samþykkja nýja grein í stjórnarskrá lýðveldisins sem heimilar slíkt framsal. En nei, við erum komin of langt inn á gráa svæðið, við erum komin inn á svarta svæðið og ég get ekki með nokkru móti greitt þessu máli leið í gegnum Alþingi og mun segja nei.