145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:13]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Hérna áðan hrópaði hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra að það ætti bara að klára öll málin sem væru í nefnd, öll málin sem ríkisstjórnin væri búin að leggja fram. Þá spyr ég: Eigum við þá líka að klára öll málin sem fjalla t.d. um staðgöngumæðrun, sem þverpólitísk sátt er um að klára ekki? Er það t.d. vilji ykkar? Eigum við að klára nákvæmlega allt sem ykkur dettur í hug? Eigið þið bara að fá að valta yfir minni hlutann og þingræðið? (BirgJ: Áfengisfrumvarpið.) Eigum við að klára áfengisfrumvarpið? Það væri frábært. Ég mundi styðja það. Hvað eigum við eiginlega að klára? Þetta gengur ekki, virðulegi forseti. Hérna eru til 1. umr. sex mál sem eiga eftir að koma til umræðu, þar af er eitt sem fer á dagskrá núna á eftir, og við eigum þrjá þingdaga eftir, nei tvo, nei þrjá, ég veit það ekki. Hvernig væri nú að setjast niður og reyna að gera þetta eins og (Forseti hringir.) siðmenntað þing svona einu sinni?