145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu þó að ég geti að vísu ekki svarað henni. En eins og þetta blasir við mér, út frá þeim skilaboðum sem ég hef lesið, er meira eins og fólk sé óvisst um stöðuna, finnist áhætta undirliggjandi og átti sig ekki alveg á því út á hvað þetta gengur. Síðan treystir fólk ekki endilega orðum ríkisstjórnar sem er að fara frá. Það veltir því fyrir sér hvernig í ósköpunum það eigi að treysta því að þetta verði til þess að það fái hærri laun. Munu 6–10% detta ofan á laun opinberra starfsmanna við þessa breytingu sisona? Ég held að enginn sjái fyrir sér hvernig það muni nákvæmlega gerast.

Fólk hefur áhyggjur af því, þeir sem ég hef talað við, að komandi kynslóðir, það er auðvitað búið að ganga frá stöðunni fyrir þá sem eru í deildinni, þeir sem koma nýir inn séu þá bæði á lægri launum en fólk á almenna vinnumarkaðnum og líka með verri lífeyriskjör en þeir sem eldri eru og fyrir eru í stéttinni. Það er vandinn sem þarf að fara yfir og við þurfum að ræða hér, en stéttarfélögin þurfa líka að fara vel yfir það sín á milli hverjir eru kostirnir og hve mikils virði þetta er í raun.