145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:00]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Ég legg til að forseti afli sér upplýsinga um það hvað er að gerast hjá ríkisstjórninni. Hvað er að gerast í samskiptum forseta þingsins við ríkisstjórnina? Ég vona að ríkisstjórnarmeirihlutinn hafi burði í sér til að tala við forseta þó að hann hafi ekki burði í sér til að tala við formenn flokkanna eða formenn þingflokkanna. Ég vona sannarlega að þeir séu ekki komnir undir borð og tali ekki einu sinni við þingforseta. Það á að ljúka þingi á fimmtudaginn og nú er kl. 5 og það er þriðjudagur. Það hlýtur að vera hægt að gefa okkur upplýsingar um það hvort (Forseti hringir.) menn séu að minnsta kosti að reyna að komast að niðurstöðu um hvað þeir vilja gera hér í lok þingsins.