145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[18:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu mjög mikill munur á 48 klukkustunda afgreiðslu eða 48 vikna afgreiðslu eða 148 vikna afgreiðslu. Við erum með dæmi um að mál hafi tekið allt upp undir tvö ár vegna þess að stjórnkerfið hjá okkur gat ekki framkallað endanlega afstöðu til umsóknarinnar og allan þann tíma er verið að halda fólki í óvissu og valda gríðarlega miklum kostnaði. Við því tel ég að við hljótum að þurfa að bregðast. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að við getum ekki tekið öll þau tilvik og afgreitt á tveimur sólarhringum, en við getum lært mjög af þeim sem hafa náð árangri á þessu sviðinu og við verðum einfaldlega að setja fjármagn í að manna stjórnsýsluna að þessu leyti til til að gera miklu betur.