145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[15:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Til að svara spurningunni aðeins betur þá segi ég já. Ég er alveg sannfærður um að það er hægt að hafa krónuna okkar sjálfstæðan gjaldmiðil án nokkurra hafta, nokkurra takmarkana. En það mun kosta tiltekna hluti og ég er ekki viss um að það sé þess virði. Ég er ekki viss um að það sé sanngjarnt. Það mun kosta að við þurfum að halda stóran óskuldsettan gjaldeyrisforða. Við verðum þá að hafa ríkissjóð mjög skuldlítinn og vel rekinn, með afgangi, og það gæti líka þýtt að við yrðum að halda uppi hærri vaxtamun milli Íslands og annarra landa en ella. Þótt margt af þessu sé jákvætt í sjálfu sér getur það kostað heilmikið líka. Kannski er raunsærra og sanngjarnara að byggja þetta þá á einhverri blöndu þessara leiða og hafa þjóðhagsvarúðartækin tiltæk ef á þeim þarf að halda. Ég man að ég spurði seðlabankastjóra Kanada að þessu í tengslum við umræðuna um upptöku kanadadollarsins hvað hann segði um þetta. Er raunhæft að við getum haft okkar mynt án nokkurra hafta? Og hann sagði: Já, auðvitað. En þá bara þurfið þið að gera það sem þarf (Forseti hringir.) til. Undirstaðan verður þá að vera mjög sterk. Það mun kosta ykkur eitthvað í þessum skilningi, þið verðið að viðhalda slíkri sterkri stöðu. Þá getið þið alveg gert það. Það var sá mæti maður sem nú er bankastjóri Englandsbanka.