gjaldeyrismál.
Ég þakka hv. þingmanni svarið og varnaðarorðin. Ég held að full ástæða sé til að hafa augun hjá sér þegar vaxtamunarviðskiptin eru annars vegar, slíkir erfiðleikar sem þeim fylgdu. En vegna þess að þingmaðurinn gerði efnahagsþróunina almennt að umfjöllunarefni er það býsna merkilegt að við skulum ná að fjármagna halla á vöruskiptum með þjónustujöfnuðinum. Þegar það fer saman við að við höfum náð þeirri stöðu að vera nettó eignarland erlendis, þ.e. eiga meiri eignir erlendis en við eigum af erlendum skuldum, veltir maður fyrir sér forsendunum fyrir þessum vaxtamun hér og í nálægum löndum. Þegar þjónustujöfnuðurinn skilar okkur jákvæðum og eignastaðan erlendis er orðin með þeim hætti, (Forseti hringir.) eru þá ekki að mörgu leyti að hverfa forsendurnar fyrir hinum mikla vaxtamun eða hinu háa vaxtastigi hér í landinu sem var til þess að fjármagna halla sem nú er horfinn?