145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski fyrst um hinar mörkuðu tekjur. Nú er það þannig að á síðasta kjörtímabili ræddum við það hér í þingsal ótt og títt hvort við ættum ekki að afnema hinar mörkuðu tekjur vegna þess að það eru ekki bara markaðar tekjur Vegagerðarinnar sem hafa verið nýttar í aðra málaflokka eins og velferðarmálin heldur annars staðar líka. Það var tillaga, ef ég man rétt, hjá síðustu ríkisstjórn um að það yrði gert. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að það að við séum ekki búin að því sé ótækt. Þó að það hafi ekki náðst núna þá er það kannski verkefni næstu ára að þessar bókhaldsfærslur verði leiðréttar. Við sjáum það í hendi okkar að það er ekki gott að hafa bókhald ríkisins með þessum hætti.

Það er einnig rétt að það var nefnd sem fór yfir farmiðaverð í innanlandsflugi. Það sem kom út úr því var að álögur ríkisins væru í raun ekki það hár póstur í flugmiðaverði, mig minnir um 1.500 kr. á hvern einasta flugmiða, að það skipti máli. Jú, að sjálfsögðu skiptir það einhverju máli, en mundi kannski ekki gjörbreyta stöðunni. Við leggjum þess vegna til að gengið verði lengra, að það verði gengið mun lengra. Við sjáum það í hendi okkar að flugmiðaverð fyrir kannski 20.000 kr. plús aðra leiðina gengur ekki og að það sé dýrara að fljúga innan lands en oft á tíðum á milli landa. Þess vegna eiga þessir fjármunir að fara í það og spurning hvort við eigum ekki að taka innanlandsflugið og gera það að hluta af almenningssamgöngukerfinu. Þetta fjármagn er í raun fyrsta skrefið í þá áttina. Síðasta ríkisstjórn lagði framlag í almenningssamgöngukerfið á höfuðborgarsvæðinu, í strætó. Nú leggjum við þetta til. Við skulum vona að þessir fjármunir nýtist vel og að innan ekki svo langs tíma sjáum við róttækar breytingar í rétta átt.