145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

samningar um NPA-þjónustu.

[10:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Við eigum í ágætu samstarfi við okkar sveitarstjórnarfulltrúa um þetta mál og önnur. Ég skil ekki af hverju þurfti að framlengja þetta um tvö ár. Það voru í minni tíð sem formaður verkefnisstjórnar gerðir um 50 samningar um NPA í landinu sem voru grundvöllur að þessu tilraunaverkefni, innleiðingarverkefni. Það hefði verið hægt að vinda sér í það mjög fljótt og fagmannlega að meta árangurinn af þeim verkefnum. Nú er komin skýrsla um það hver árangurinn af þessum verkefnum hefur verið. Það er alveg ótrúlegt að mér séu kunnug efnisatriði þessarar skýrslu en ekki ráðherranum. Það lýsir kannski áhuga hæstv. ráðherra á málinu. Ég get upplýst hæstv. ráðherra um það að samkvæmt minni vitneskju kemur þar fram að ánægjan er mjög mikil meðal notenda, ánægjan er mjög mikil meðal aðstandenda og meðal sveitarstjórnarfólks. Það er leit að þjónustuformi í þessum geira þar sem ánægja er svona mikil. Svo kemur fram í skýrslunni að samfélagslegur ábati er mun meiri en samfélagslegur kostnaður. Af hverju hefur hæstv. ráðherra ekki einfaldlega (Forseti hringir.) leigt Hörpuna, boðað blaðamannafund, ríkisstjórnin hefur nú gert það af alls konar tilefnum á kjörtímabilinu, og boðað að notendastýrð persónuleg aðstoð verði fest í lög (Forseti hringir.) eins og Alþingi hefur ákveðið og fötluðu fólki bjóðist þar með mannréttindi og sjálfstætt líf?