145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[11:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að tala um opinber útboð sem við erum búin að vera að vinna mikið að á þessu kjörtímabili með góðum árangri. Það eru ákveðnir þættir sem við ætlum að skoða betur á milli umræðna og legg ég því til að málið fari til nefndarinnar á milli umræðna. Þetta er áhugavert mál að mörgu leyti. Eitt af því sem við erum kannski fyrst að taka á er gallinn við það að vera í samstarfi við Evrópusambandið. Þarna kemur fram mjög skýrt það sem er orðið eðli Evrópusambandsins sem felst í því að þar eru við stjórn aðilar sem bera ekki ábyrgð gagnvart neinum og er ekki hægt að eiga neitt við. Þeir sem hafa bestan aðgang að þeim eru stóru lobbígrúppurnar, bæði hvað varðar lyf og fjármálakerfið og ýmislegt annað. Við erum þess vegna í þessari haftaverslun ESB um lyf sem er sérstaklega til þess gerð (Forseti hringir.) að hækka verð á lyfjum til staða sem eru með góðan kaupmátt, eins og á Íslandi. Við reynum að vinna gegn þessu eins og við getum. (Forseti hringir.) Þetta er leið til þess.