145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef maður hefði haft ótakmarkaðan ræðutíma og getað farið almennt yfir frammistöðu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum hefði lesturinn orðið enn þá svakalegri. Nei, ég mundi nú ekki segja að ég væri reiður út af því að strandsiglingar voru lagðar niður. En mér hitnar hins vegar í hamsi. Ég hef ástríðu fyrir þessum málum og mér hitnar í hamsi þegar mér finnst eitthvað jafn óendanlega vitlaust og það er þjóðhagslega að glutra því niður og missa það út úr höndunum. Það er hægar sagt en gert að vinda ofan af því aftur þegar tilteknar landflutningakeðjur eru komnar með einokun á þessu, markaðsráðandi risar sem hafa þetta bara eins og þeir vilja, og menn eiga engan kost annan en að borga þær gjaldskrár sem upp eru settar. Ég er ekki að tala um grænmeti eða dagvöru sem þarf að komast hratt á milli staða. Að sjálfsögðu mundi léttari varningur sem hefur takmarkað geymsluþol ekki fara með skipum. Og þó, ef það væri nú tvisvar í viku gæti býsna mikið af slíkri „bulk-vöru“ farið þannig. En hvað með áburð? Þarf að flytja hann allan á bílum af því að geymsluþolið sé svo lítið? Hvað með steypustyrktarjárn? Hvað með jarðýtur? Hvað með olíu? Þetta er allt komið upp á vegina. Hefur hv. þingmaður t.d. verið úti á norðausturhorninu þegar mest er um að vera í uppsjávarfrystingu á Þórshöfn og Vopnafirði og stóru skipin eru að koma inn, bæði vinnsluskip og skip með ferska vöru? Og taka fleiri tugi þúsund lítra af olíu. Það koma lestir af bílum, hver á fætur annarri, til að koma með olíuna um borð. Væri nú ekki gaman að hafa dreifikerfi á ströndinni eins og einu sinni var vísir að? Þarf þetta endilega að vera svona? Nei. Ekki ef við höfum skoðanir á því og stuðlum að því að þróunin verði eins og við viljum hafa hana, af umhverfislegum ástæðum. Þá eru til tæki og tól til að stýra því og beina í ákveðinn farveg, með hvötum og/eða beinum stjórnvaldsaðgerðum. Við eigum að skoða samgöngumálin (Forseti hringir.) heildstætt og hafa umhverfisvinkilinn þar inni í og byggðavinkilinn og fleiri þætti því að allt er þetta náttúrlega samofið.