145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:18]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur andsvarið. Ég álít að einkaframkvæmd eigi að vera algjör undantekning, það er grundvallarstefna mín. Hún á einungis við um, eins og þingmaðurinn kom inn á, vel afmörkuð verkefni til að byggja upp grunnstoðirnar, grunn vegakerfisins. Mér finnst það ekki vera valkostur. Varðandi almenna fjármögnun get ég tekið heils hugar undir það sem kemur fram í áliti meiri hlutans, að það þarf að verja mun hærra hlutfalli af vergri landsframleiðslu til samgangna. Hæst varð hlutfallið 2008 eins og fram kemur þar, 2%. Ég tel það enga spurningu að við þurfum að fara upp í það hlutfall alla vega tímabundið sem allra fyrst þannig að við náum að vinna upp uppsafnaða viðhaldsþörf. Það þarf að bæta viðhald og ýmiss konar þjónustu vegna aukinnar notkunar á vegakerfinu, merkingar, hálkueyðingar, snjómoksturs og hluta eins og að hefla malarvegi sem hafa algjörlega setið á hakanum. Það er algjörlega ljóst að minn vilji er sá að við hækkum þann hlut sem samgöngurnar fá. Ég kom til að mynda ekkert inn á almenningssamgöngurnar í ræðu minni, m.a. af því ég ræddi það ítarlega hér við fyrri umr.