145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

réttur til fæðingarorlofs.

[11:27]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði að fyrir liggja drög að frumvarpi þar sem við förum yfir reikningsreglurnar fyrir ávinnslu á réttindum í fæðingarorlofi. Ég get hins vegar ekki tekið undir með þingmanninum að ég telji að við eigum að taka skrefið til baka sem snýr að því að grundvalla m.a. réttindi okkar í fæðingarorlofinu varðandi atvinnuþátttöku án þess að það sé eitthvað sem aðilar vinnumarkaðarins eru sammála um að gera. Það hefur ekki verið hluti af þeim tillögum sem ég hef verið með á mínu borði.

Ég nefndi líka að við höfum verið að fara yfir svokallaðan fæðingarstyrk sem það fólk fær greiddan sem hefur ekki verið á vinnumarkaðnum þegar barn fæðist og hvað við getum gert til þess að hækka upphæðir þar.

Ég vil einnig minna á það, af því að við höfum verið að tala um 300 þús. kr., m.a. í almannatryggingunum og framsóknarmenn voru fyrstir til að álykta um mikilvægi þess að hækka lágmarkslaun á vinnumarkaði upp í 300 þús. kr., að við erum samt sem áður ekki komin þangað enn þá. Það er þannig að það er vinnandi fólk á vinnumarkaðnum sem greiðir stóran hluta af þeim (Forseti hringir.) skatti sem kemur til ríkisins sem fjármagnar þessi mikilvægu velferðarkerfi okkar.