145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

neyðarflugbraut.

[11:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ríkissjóður hefur fengið greiddar 440 millj. kr. fyrir landið, auk hlutdeildar í byggingarrétti, þannig að ég tel einboðið að ráðast í þessa framkvæmd í Keflavík, og ég fagna yfirlýsingu ráðherrans þar um. Ég vil nota síðara andsvarið til að spyrja ráðherra hvort ekki sé óvarlegt að tala um neyðarbraut í þessu sambandi. Það er, eins og ráðherrann hefur sagt, búið að loka þessari braut. Ef þetta væri svona mikil neyðarbraut og það er ekki kostnaðarsamara en þetta að opna sömu braut í Keflavík, hefði þá ábyrg ríkisstjórn ekki fyrir löngu verið búin að opna braut í Keflavík um leið og hún gekk frá sölunni hér í Vatnsmýrinni? Hefði hún ekki verið búin að taka slíkar ákvarðanir?

Þetta virðist alla vega ekki vera mjög aðkallandi þegar brautin hefur verið lokuð í marga mánuði. Er þá ekki rangnefni að kalla þetta neyðarbraut? Er það ekki til þess fallið að valda fólki áhyggjum af almannavarnaástandi eða öðru slíku algjörlega að óþörfu? Neyðarbraut hlýtur að vera braut sem aldrei má vera lokuð.