145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framsal íslenskra fanga.

790. mál
[15:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari fyrirspurn hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar til utanríkisráðherra. Ég tel að þetta sé afar mikilvæg umræða og hún varðar réttlætismál sem snertir okkur öll þegar hún er til umræðu á vettvangi dagsins, ef svo má að orði komast. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að við höldum til haga í þessum samskiptum þeirri breytingu sem hefur orðið í umræðunni almennt á Vesturlöndum, ekki bara hér á Íslandi, um það hvað felst í fangelsisvist. Sú hugmyndafræði sem hefur sem betur fer styrkt sig á Íslandi, sem er hugmyndafræðin um betrun í stað refsingar, er hugmyndafræði sem er líka partur af þeirri umræðu sem við eigum að flytja út þegar við ræðum þessi mál í samskiptum við aðra, hvort sem það er við Brasilíu eða önnur lönd, vegna þess að sums staðar er staðan þannig að ekki veitir af því að sú hugmyndafræði nái að festa þar rætur; ekki veitir af að hún festi rætur sem víðast.