145. löggjafarþing — 163. fundur,  4. okt. 2016.

störf þingsins.

[15:55]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Eins og þingið veit höfum við hér á okkar borði mál er varðar raflínur að Bakka. Hæstv. iðnaðarráðherra stormaði hér inn fyrir tveimur vikum með þingskjal, nýtt lagafrumvarp, sem kveður á um að taka úr sambandi önnur lög sem varða eðlilega og lögbundna málsmeðferð vegna umhverfismats og einnig lögboðinn rétt félagasamtaka og einstaklinga til að mótmæla í því ferli. Hæstv. ráðherra liggur svo á að hún getur ekki beðið í sjö daga þar til úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fellir dóm í málinu. Hún vill sniðganga eðlilegt ferli, sniðganga ríkjandi landslög, sem henta henni ekki, og setja ný. Það á að gerast strax. Þau lög eiga að hafa að engu stjórnarskrárbundinn rétt fólks til að andmæla.

Hvert er málið? Það er að Landvernd og Fjöregg, sem er félag heimamanna í Mývatnssveit, hafa kært framkvæmdaleyfi við raflínur að Bakka. Þau eru ekki að kæra það að leggja eigi raflínur að Bakka. Þau vilja bara fara aðra leið en Landsnet leggur upp með. Það er heila málið. Landvernd vill fara heppilegri leið fyrir náttúruna með minni umhverfisspjöllum, líka hentugri leið fyrir aðra fjárhagslega hagsmuni okkar Íslendinga, svo sem ferðamennskuna. En hæstv. ráðherra, sem hefur líka skilað auðu í málum er varða ferðamennsku, vill ekkert vita um þetta og vill bara þessi nýju lög.

Svo kemur upp úr kafinu að hún kemur hér með óháð álit, að sögn, sem styður þessa nýju lagasetningu hennar. Það er ekki unnið af umhverfislögfræðingum í akademíunni eða óháðum aðilum, það er unnið af lögfræðingum Landsnets. (Forseti hringir.) Lögfræðingar Landsnets, Logos lögfræðistofa, voru fengnir til að vinna álitsgerð um það hvort kæra á hendur fyrirtækinu sem þeir „representera“ megi missa sín. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega?


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna