145. löggjafarþing — 163. fundur,  4. okt. 2016.

störf þingsins.

[15:57]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma hér á lokadögum þingsins inn á mikilvægt mál sem flestir stúdentar í landinu bíða eftir, en það er hið svokallaða LÍN-frumvarp, lánasjóðsfrumvarp. Ég ætla að vona að við getum sýnt stúdentum þá virðingu, og að við getum sýnt þá skynsemi, í þessum sal að leggja pólitískar deilur til hliðar og klára þetta mál. Um er að ræða mikil framfaraskref sem stúdentar hafa lengi kallað eftir.

Við höfum fengið áskoranir frá fjórum stúdentafélögum, þeim stærstu í háskólasamfélaginu, þar sem kallað er eftir því að þetta verði klárað og að þeir verði ekki notaðir í pólitískum deilum einu sinni enn. Þeir hafa lengi kallað eftir fyrirframgreiðslum á námsstyrkjum, að fá beina námsstyrki og 100% framfærslu. Þetta er allt inni í því frumvarpi sem liggur hér fyrir og þeir bíða eftir. Þeir taka hins vegar fram að hægt er að halda áfram með þetta. Þetta eru mannanna verk og kannski ekki alveg 100% það sem þeir vilja en gríðarleg kjarabót sem þeir bíða eftir. Ég vona að ég þurfi ekki að fara út í kosningabaráttuna og útskýra fyrir þeim að pólitískar deilur hafi orðið til þess að útskýra fyrir þeim að þeir hafi ekki fengið þá kjarabót sem þeir hafa lengi kallað eftir.

Ég vil líka nefna annað mikilvægt varðandi þetta mál, sem hefur verið minna í umræðunni, þ.e. að það gerir iðnnámi í framhaldsskólum hærra undir höfði. Þetta hvetur fólk til að fara frekar í iðnnám. Þar getur það líka átt rétt á 65 þús. kr. styrk á mánuði við að stunda iðnnám. Þetta er eitt stærsta skrefið sem stigið hefur verið til að hvetja fólk í iðnnám. Við megum ekki láta þetta tækifæri fram hjá okkur fara. Við skulum sýna manndóm og klára þetta nú á lokadögum þingsins.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna