145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:39]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir þau orð sem hér féllu um þessi mál í Noregi. Ég þekki fleiri mál og mál lesa um það á sérstakri Facebook-síðu hvernig farið er með Íslendinga og íslensk börn í Noregi.

Ég ætla að ræða um langan loforðalista vinstri flokkanna fyrir kosningar, sem er mikill fagurgali, dýrir kosningavíxlar þar sem allir eiga að fá allt frítt, heilbrigðisþjónustuna, og talað er um endalaus útgjöld.

Ég ræddi í morgun við Friðgeir Jóhannesson sem sótt hefur mál á hendur Reykjavíkurborg vegna fötlunar sinnar eftir ömurlegt slys sem hann lenti í þegar hann varð undir hjólagröfu fyrir fjórum árum. Hann hefur í tvö ár sótt mál á hendur borginni til að fá fram rétt sinn til liðveislu frá borginni en enginn hefur svarað. Fjögur ár, fjórar ákærur og dómar og enginn hefur rætt við þennan mann. Svona eru efndirnar oft þegar loforðin eru há og mikil, þá verða efndirnar minni. Fögru kosningaloforðin fölna þegar maður les um svona staðreyndir og heyrir af því hvernig farið er með fólk.

Ég held að við ættum að ganga til kosninga og hugsa um stöðugleika og þann mikla kaupmátt sem við þurfum að halda áfram að tryggja í þessu samfélagi og lofa ekki fólki því sem ekki er hægt að standa við. Verkin tala. Reykjavíkurborg hefur í þessu tilfelli komið skammarlega fram við þennan mann. Það voru fréttir um þetta mál í sjónvarpinu í gær. Ég held að við ættum að temja okkur að lofa ekki gulli og grænum skógum þegar efndirnar eru ekki betri en þetta.


Efnisorð er vísa í ræðuna