145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:28]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það virðist vera nauðsynlegt að koma hérna upp alltaf öðru hvoru og halda því til haga að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa einmitt verið einstaklega sáttfúsir og lausnamiðaðir þegar komið hefur að því að ljúka málum í nefnd. Það höfum við verið allt fram að því, getum við sagt, að starfsáætlun Alþingis rann út. Þá breytist afstaða fólks.

Svo er eins og hv. þm. Jón Gunnarsson sé hissa á því að ólíkir flokkar hafi ólíka pólitíska afstöðu til mála. Skárra væri það nú. Það er einmitt þess vegna sem flókin og stór mál þurfa góðan tíma í þingnefndum. Sá tími er einfaldlega liðinn að það sé hægt að vinna mál þannig og þess vegna er ekki eftir neinu að bíða með að vinda ofan af þessu og ákveða hvaða mál er (Forseti hringir.) nauðsynlegt og hægt að klára og slíta síðan þingi. Og þar verð ég aftur að biðla til hæstv. forseta um að taka stjórnina í sínar hendur.