145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við höldum hér áfram þar sem frá var horfið í síðari umræðu um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. — Herra forseti …

(Forseti (EKG): Forseti vill ítreka beiðni sína til þingmanna um að gefa gott hljóð hér í þingsalnum og vekur athygli á að fyrir utan þingsalinn er ágætisrými til þess að ræða önnur mál.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir.

Það er óneitanlega pínulítið skrýtið að koma aftur að þessari umræðu þar sem frá var horfið í fyrradag þar sem var bent á fjarveru hæstv. ráðherra, þar á meðal hæstv. innanríkisráðherra sem lagði þessa þingsályktunartillögu fram. Þá var hæstv. ráðherrann staddur úti á landi, en ég veit ekki hvar hún er núna, hún hefur mögulega einhverja lögmæta ástæðu til þess að vera ekki hér, í það minnsta er ráðherrann ekki heldur hérna núna.

(Forseti (EKG): Forseti vill vekja athygli á að hæstv. ráðherra er á leiðinni hingað.)

Takk kærlega fyrir þessar upplýsingar, hæstv. forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að hæstv. ráðherrann sé á leiðinni í hús.

Í þessari umræðu er ekki hægt að komast hjá því að nefna það og árétta, sem hefur komið fram áður og við fyrri umr. um þetta mál, að illa hefur gengið hjá hæstv. ríkisstjórn að koma með samgönguáætlun og að fá hana samþykkta. Þessi áætlun gildir fyrir árið 2015, sem er auðvitað liðið, og árið 2016 og nú erum við komin fram í október þannig að hún gildir í rauninni aðeins fyrir þá mánuði sem eftir eru af árinu 2016 og svo árin 2017 og 2018. En þrátt fyrir þann galla sem augljóslega er á málinu held ég að allir séu alveg sammála um að það skiptir samt máli að þessi samgönguáætlun sé komin fram. Ég held að það sé nokkur vilji, eðlilega, til þess að hún verði afgreidd þó svo að okkur greini mögulega á um hvaða breytingar sé nauðsynlegt og eigi að gera á henni.

Það sem er kannski dapurlegast er að það liggur alveg fyrir að það vantar peninga inn í samgöngukerfið og það hefði svo sannarlega verið gott að nota þann efnahagsbata sem orðið hefur til þess að styrkja samgöngukerfið. Það er heldur ekki hægt að komast hjá því að hugsa að nú þegar einungis örfáir dagar eru í kosningar fari málin að hreyfast og þá sé ríkari vilji til þess að koma með viðbætur inn í samgönguáætlun, sem þó hefur verið kallað eftir drjúgan hluta af þessu kjörtímabili.

Eins og ég segi tel ég engu að síður að það beri að fagna því að við séum þó komin á þennan stað. Ég held að það sé í rauninni enginn stór ágreiningur um það, enda hefur komið fram að minni hluti hv. samgöngunefndar styður breytingartillögurnar sem koma frá meiri hluta hv. þingnefndar en vilja vissulega gefa enn betur í.

Ég held að það viti allir og hafa jafnvel reynt á eigin skinni eða eigin samgöngutækjum að vegakerfið er að drabbast niður. Ég held að það sé heldur enginn ágreiningur um að það skorti að fjármagn sé veitt í nýframkvæmdir. Fólk hefur áhyggjur af því að fjármagnið nægi ekki einu sinni til þess að halda í horfinu hvað viðhald varðar, heldur sé vegakerfið okkar hreinlega að versna. Það kemur fram í nefndaráliti minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar að á fundum nefndarinnar hafi fulltrúar Vegagerðarinnar bent á að það þyrfti að veita 8–9 milljarða kr. árlega í viðhald vega til þess eins að halda í horfinu, en það þyrfti hins vegar 11 milljarða kr. árlega til þess að bæta ástand vega og öryggi samhliða nauðsynlega viðhaldinu.

Það segir einnig í áliti minni hlutans að samkvæmt þingsályktunartillögunni sjálfri um samgönguáætlun eins og hún liggi fyrir þá standi þessi tala í 7 milljörðum fyrir næstu tvö árin, þ.e. árin 2017 og 2018, en verði hún samþykkt óbreytt sé ljóst að vegakerfið muni halda áfram að versna því að þessi upphæð muni ekki einu sinni vera nóg til þess að halda í horfinu.

Meiri hluti hv. umhverfis- og samgöngunefndar leggur til að þessi liður verði hækkaðir í 8 milljarða á ári fyrir árin 2017 og 2018, en það vantar þó enn þá talsvert til að ná upp í það sem Vegagerðin bendir á að þurfi og telur minni hluti hv. nefndar efni standa til þess að hækka þá fjárhæð enn meira og leggur því til að hún verði hækkuð upp í 9,5 milljarða árlega til þess að það megi hefja uppbyggingu í kerfinu. Undir þá tillögu tek ég.

Í áliti minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar er bent á að við áætlanagerð í samgöngumálum sé mikilvægt að þekking og álit sérfræðinga á sviðinu sé virt að verðleikum og að það eigi að reyna að forðast tilviljanakenndar ákvarðanir. Ég tel að gríðarlega mikilvægt sé að vinna málin þannig því að mér finnst ekki vera góður bragur á því eða það sé hlutverk okkar á Alþingi að vera að togast á um það út frá einhvers konar pólitísku, landshlutabundnu eða kjördæmabundnu sjónarhorni hvar verði farið í vegabætur eða nýframkvæmdir. Nú er þetta samt svo að þingmenn þekkja oft vel til á sínu heimasvæði og vita kannski ýmislegt um það sem þar megi betur fara og alveg eðlilegt að við höfum skoðanir á því. En ég held samt að það sé alltaf mikilvægt að við sem stofnun, Alþingi, sem löggjafarsamkunda allrar þjóðarinnar, séum alltaf meðvituð um að við erum þingmenn landsins alls og þess vegna skipti máli að við tökum mark á okkar helstu sérfræðingum og forðumst að það verði einhvers konar tilviljanakenndar ákvarðanir sem eru teknar eftir því nánast hverjir eru í stuði í hvaða kjördæmi hverju sinni.

Á sama tíma er hægt að halda góðu samtali við hina ólíku landshluta og þar má einmitt benda á vinnubrögð eins og t.d. voru viðhöfð þegar kemur að sóknaráætlun landshlutanna. Eins og ég sagði býr líka mikil þekking úti í kjördæmunum. Ég tel samt að við verðum alltaf að hafa þessa heildarmynd undir. Þetta tvennt þarf að vegast einhvern veginn á.

Það sem kom mér dálítið á óvart þegar ég fór að kynna mér þessi nefndarálit, því að ég á ekki sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, er að ég fann ekki þegar ég var að lesa álit frá hv. meiri hluta nefndarinnar að eitthvað væri fjallað um loftslagsmál. Það kann að vera að ég hafi ekki náð að lúslesa álitið nógu vel, og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál, en ég fann ekki að það væri neitt minnst á loftslagsmál, sérstaklega í nefndaráliti meiri hlutans. Mér fannst það skjóta svolítið skökku við því að við erum nýlega búin að samþykkja fullgildingu á Parísarsamningnum, sem er að mínu mati eitt af því mikilvægasta og merkilegasta sem við höfum gert á þessu þingi. Þessi samningur skiptir gríðarlegu máli fyrir framtíð okkar og hvort okkur takist með einhverjum hætti að ná tökum á loftslagsbreytingunum. En eitt af því sem kemur fram í nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar vegna fullgildingar á Parísarsamningnum er að ein helstu sóknarfæri Íslands þegar kemur að því að uppfylla þennan samning séu í samgöngumálunum. Það er atriði sem ég held að við eigum að taka mjög alvarlega og við verðum að taka mjög alvarlega og þar þurfi að setja aukinn þunga í vinnuna.

Minni hluti hv. umhverfis- og samgöngunefndar tekur loftslagsmarkmiðin hins vegar upp og telur jafnframt að hraða beri vinnu við það að minnka hlut jarðefnaeldsneytis í samgöngum og auka endurnýjanlega orkugjafa. Þetta er eitt af því sem er alveg gríðarlega mikilvægt inn í framtíðina ef okkur á að takast að ná tökum á loftslagsbreytingunum. Þarna liggja ákveðin — mér finnst svolítið óþægilegt að nota orðið sóknarfæri í þessum því að það er of jákvætt orð í mínum huga meðan loftslagsbreytingarnar eru hins vegar gríðarlega neikvæðar og munu hafa gríðarlega neikvæðar afleiðingar í för með sér, en þarna er alla vega tækifæri Íslands til að draga úr losun.

Þess vegna tek ég undir þær áherslur sem lagðar eru á fjölbreytilega samgöngumáta og tel jafnframt mjög mikilvægt að stuðlað verði að eflingu almenningssamganga og að það verði passað upp á innviði fyrir þá sem kjósa umhverfisvænustu samgöngumátana, eins og það að fara um gangandi eða hjólandi.

Virðulegi forseti. Það er svolítið sérstakt að standa hér og ræða um samgönguáætlun á þessum tímapunkti á þessu kjörtímabili þegar við erum komin út úr starfsáætlun þingsins. Í raun liggur ekkert annað fyrir en að gera þurfi samkomulag um það hvernig eigi að ljúka þessu þingi og fara héðan út og hefja kosningabaráttu. Í mínum huga er það einboðið að ef ljúka á þessu máli, sem ég held raunar að sé talsvert breið samstaða um, verði að gera það í samkomulagi. Ég tel að það verði þá að gera með því að samþykkja einnig breytingartillögur frá minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar, þ.e. að bæði tillögurnar frá meiri hluta hv. þingnefndar verði samþykktar sem og minni hlutans. Ég er bjartsýn á að það væri hægt að ná sátt um þá lendingu á þessu máli. Ég held nefnilega að við séum öll sammála um að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að við förum í það að tryggja fjármagn (Forseti hringir.) til þess að bæta, ekki síst vegakerfið okkar en auðvitað einnig (Forseti hringir.) ýmsa aðra þætti sem ég hef ekki fjallað um í ræðu minni.