145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru tvö atriði sem hafa komið fram í umræðunni, aðskilin mál sem ég ætlaði aðeins að bregðast við. Annars vegar var það ræða hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur varðandi þær hugmyndir sem hún og flokkur hennar hafa um breytingar á skattkerfi í þágu landsbyggðarinnar. Ég verð að lýsa yfir miklum efasemdum um hugmyndir af þessu tagi. Ég held að skattkerfið eigi að vera sem einfaldast, sem hlutlausast, og ef menn vilja fara í sértækar aðgerðir til að styðja einstakar byggðir sé heppilegra að gera það með beinum hætti en að flækja skattkerfið eða önnur slík kerfi. Ég er þeirrar skoðunar í grundvallaratriðum að einfalt skattkerfi sé öllum til hagsbóta. Vilji menn taka ákvarðanir um að styðja einstakar byggðir sé hreinlegra að taka ákvörðun um slíkt með opin augun, frekar en að nota ríkissjóð til að niðurgreiða launakostnað fyrirtækja eins og þarna væri um að ræða í raun og veru.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna er eiginlega smá hugleiðing í framhaldi af hugleiðingu hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur um kosningakerfið. Auðvitað er það þannig að í lýðræðissamfélagi er hægt að haga kosningakerfum á margan mismunandi hátt. Það kerfi sem við búum við er ekki fullkomið á neinn hátt. Það er skárra en það sem við höfðum áður að ýmsu leyti en á því eru ýmsir gallar. Það er mikilvægt og grundvallaratriði að kosningakerfið endurspegli vilja kjósenda. Mér finnst á hinn bóginn ekki óeðlilegt eða (Forseti hringir.) ólýðræðislegt að gera ákveðna kröfu um lágmarksstuðning við stjórnmálaafl (Forseti hringir.) til þess að það eigi sæti á Alþingi, (Forseti hringir.) til þess að forðast kraðak og upplausn sem geta stafað af því ef of auðvelt (Forseti hringir.) er að koma fulltrúum inn á þing.


Efnisorð er vísa í ræðuna