145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir hefur sýnt veginum út á Látrabjarg mikinn áhuga. Það er mjög gott að fá liðsmann hér af höfuðborgarsvæðinu í þeim efnum, ekki veitir af. Ég hef stundum sagt við hv. þingmann að hún væri sendiherra hinna dreifðu byggða og Vestfjarða á Alþingi. Það veitir ekki af því að hafa sterka talsmenn á höfuðborgarsvæðinu.

Við í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar lögðum til í breytingartillögu okkar að meiri fjármunir verði lagðir í veginn út á Látrabjarg, í vegaframkvæmdir í Árneshreppi og á Skógarströnd, vegir í Dölum endurbættir og átak gert í héraðs- og tengivegum um allt land. Í þessum breytingartillögum er líka talað um að settar verði 200 millj. kr. í Vatnsnesveginn, sem er auðvitað hörmulegur og við þingmenn höfum séð myndir á Youtube af því hvernig ástand vega er þar. Það er víða slæmt ástand.

Ég vil á þessum síðustu sekúndum ræðu minnar segja varðandi flug í landinu að ég tel að það hafi aldrei verið brýnna en nú að koma fluginu inn í almenningssamgöngur og horfa til þeirra leiða sem farnar eru í Skotlandi þar sem fólk sem á lögheimili lengst frá markaðssvæðinu og höfuðstaðnum hefur möguleika á að fá flugfargjöld á lægra verði en almennt gerist, hinn almenni ferðamaður og aðrir sem ekki búa þar. Við verðum að fara að setja flugið inn í almenningssamgöngur. (Forseti hringir.) Það er löngu kominn tími til þess.