145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að ræða aðeins við hv. þingmann um innanlandsflugið. Hún kom inn á það í máli sínu. Innanlandsflug er gífurlega mikilvægt fyrir okkur sem þjóð til að tengja saman landshluta og samnýta þá þjónustu sem hefur verið að safnast meira og meira á höfuðborgarsvæðið, og eins til þess að nýta okkur í ferðaþjónustu og að fólk geti farið víða um land án þess að þurfa endilega að hafa viðkomu í höfuðborginni. Nú er Flugfélag Íslands, að mér skilst, að fara af stað með tilraun, þ.e. að fljúga beint frá Keflavík til Akureyrar.

Telur hv. þingmaður að það komi inn í þá umræðu sem verið hefur mjög heit í gegnum árin varðandi staðsetningu Reykjavíkurflugvallar? Alveg burt séð frá þeirri umræðu, finnst hv. þingmanni ekki að fara hefði mátt miklu fyrr af stað með að bjóða upp á flug beint frá Keflavík á stærstu innanlandsvellina og að ferðaskrifstofur markaðssettu sig þannig að það væri í boði? Það þarf auðvitað að vera framboð á vörunni svo hún seljist. Það væri þá valkostur fyrir þann gífurlega fjölda ferðamanna sem hefur áhuga á að heimsækja okkur, og virðist ekkert hafa dregið úr þeim áhuga, að fljúga til þeirra landshluta sem eru með góða flugvelli og nota þá Bombardier-vélarnar, hvort sem það eru þær stærri eða minni. Þetta eru staðir eins og Ísafjörður, Akureyri, Egilsstaðir og Höfn í Hornafirði. Hefði ekki mátt gera það fyrir löngu og ætti ekki að gera að gera það á fleiri stöðum að fara þá frá Keflavík og út á land?