145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[14:20]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það er rétt að boðað var til fundar í atvinnuveganefnd til þess að ræða dagskrármál sem kennt hefur verið við Bakka. Það var ætlunin að á þeim fundi kæmu fulltrúar umhverfisráðuneytisins til þess að gera grein fyrir bréfi eða áliti sem ráðuneytið hafði sent nefndinni vegna frumvarpsins um línulögn í tengslum við framkvæmdirnar á Bakka. Því miður tókst þannig til að þeir aðilar úr ráðuneytinu sem boðaðir höfðu verið gátu ekki komist og fyrir því voru lögmætar ástæður. Forseti hefur rætt við formann nefndarinnar sem hyggst síðar í dag, jafn skjótt og það er unnt, um leið og þessir fulltrúar geta komið til fundar við nefndina, halda fund í nefndinni til þess að fara yfir þessi mál. Sá fundur getur ekki orðið alveg að sinni, forseta er ekki ljóst nákvæmlega hvenær það verður, en gerir ráð fyrir því að það verði síðar í dag. Þá er það ætlun forseta að halda áfram með þá dagskrá sem nú er. En forseti hefur væntingar um að í ljósi þess að nú er verið af heilum hug verið að reyna að vinna eins vel og mögulegt er að því að fækka álitamálum sem uppi eru um einstök atriði, sem hv. þingmenn hafa með eðlilegum hætti óskað eftir að væri varpað ljósi á, þá væntir forseti þess að umræður gætu farið að verða greiðari og við náum hér lengra með dagskrána sem fyrir liggur í dag.