145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:04]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall andsvar öðru sinni. Ég held að við getum verið sammála um það, ég og hv. þingmaður, að skynsamlegt sé að fá sérfræðinga að sunnan til að fara yfir vegamálin og reyna að finna bestu leiðir fyrir vegarstæði hverju sinni. En auðvitað skiptir mjög miklu máli að hafa heimamenn með í ráðum. Þá vil ég aftur nota tækifærið og benda á að áætlunargerð á Íslandi er enn frumstæð og að mínu viti frekar tilviljunarkennd. Það vantar langtímasýn á það hvert við viljum fara í þróun byggðar í landinu. Í flestum landshlutum fækkar fólki og væntanlega verður svo áfram, það þarf mjög mikið til að snúa þeirri þróun við. Hún er ekki séríslensk, hún er ekki sérevrópsk, þetta er vandamál í öllum heiminum. Fólk þyrpist til borga og vill búa í borgum. Það er m.a. vegna þess sem við komum inn á áðan, þ.e. að atvinnumöguleikar kvenna úti á landi eru miklu takmarkaðri. Einhverra hluta vegna hafa mál skipast þannig mjög víða, ekki bara hér á landi, en við erum að tala um Ísland og íslenska samgönguáætlun, og fer kostum sífellt fækkandi fyrir konur til að mennta sig og starfa. Auðvitað eru kröfur um fjölbreyttara atvinnulíf orðnar meiri, orðið erfiðara að fá ungar fjölskyldur til að flytja út á land og hefja þar búskap og láta til sín taka. Ungt fólk nú til dags, bæði konur og karlar, er yfirleitt mjög vel menntað, sífellt betur menntað, og þá verða bæði hjónin að finna sig á nýjum stað og í nýjum hlutverkum. Það skiptir því gríðarlega miklu máli fyrir byggðaþróun hér á landi, sem og annars staðar, að við hugsum atvinnumál jafnt fyrir konur sem karla.