145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

höfundalög.

870. mál
[17:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera stutta grein fyrir fyrirvara mínum á nefndarálitinu. Ég styð málið en það hefur valdið miklum misskilningi í umræðunni og ég ætla að fara aðeins yfir hvers vegna það er, en sömuleiðis tilkynna þær gleðifréttir að helstu áhyggjur við málið sem kom upp við meðferð nefndarinnar voru leystar með því að fella brott a-lið 1. gr. frumvarpsins.

Þannig er mál með vexti að margir eru haldnir þeirri röngu trú að til staðar sé gjald sem er lagt á kassettur, harða diska o.s.frv. til þess að bæta höfundum tjón af völdum ólöglegrar dreifingar. Það skrýtna er, sem gerir fólki erfitt að skilja þetta til hlítar, að þetta gjald er til þess að bæta höfundum tjón fyrir löglega afritun. Þetta hljómar skringilega vegna þess að þetta er skringilegt. Ástæðan fyrir því að ég hef fyrirvara á nefndarálitinu er að mér finnst mjög skrýtið, svo meira verði ekki sagt, að nota þetta hugtak, bætur, yfir einhvern skaða sem höfundar eiga að hafa hlotið af því að fólk afriti t.d. af geisladiski yfir á kassettu og noti í bílnum. Hugmyndin er þá væntanlega sú að fólk kaupi sér geisladisk en til þess að spila tónlistina í bílnum mundi það líka kaupa kassettuna, sem er fráleit hugmynd, algjörlega fráleit hugmynd. Það er þess vegna sem þetta veldur svona miklum misskilningi. Fólk heldur að þetta gjald hljóti að varða ólöglega fjölföldun þegar reyndin er sú að það varðar löglega fjölföldun. Fyrir utan það er ágætt að árétta að frumvarpinu er ekki ætlað að útvíkka þetta gjald heldur þvert á móti að afnema það. Höfundum er hins vegar bættur hinn svokallaði skaði með því að taka peningana beint úr ríkissjóði sem er jákvætt, það er jákvæð þróun, en mér þykir þess virði að nefna þetta við hvert einasta tilefni vegna þess að þetta veldur miklum misskilningi.

Það kom ekki í ljós við 1. umr. um málið en það kom í ljós við umfjöllun nefndarinnar að a-liður 1. gr. bjó til vandamál sem í stuttu máli var það að erfitt var að átta sig á því hverjar afleiðingarnar ættu að vera. Eins og margir vita á Íslandi þá er ekki alla vega ljóst í lögum að það sé ólöglegt að hala niður höfundaréttarvörðu efni í óþökk höfunda, það er hins vegar klárlega ólöglegt að dreifa því í óþökk höfunda. Þótt reyndar sé einhver ágreiningur um þessa lagatúlkun þá hefur fólk samt sem áður getað gengið að því sem vísu að ekki sé ólöglegt að niðurhala höfundaréttarvörðu efni í óþökk höfunda. Það kom í ljós við meðferð nefndarinnar á málinu að þetta ákvæði, a-liður 1. gr., væri hugsað til þess, eins og frumvarpið, eins og því er ætlað af höfundum frumvarpsins að skýra þetta, að gera það ólöglegt að niðurhala ólöglegu efni. Þegar spurt var út í lagalegar og réttindalegar afleiðingar þess sem kallað er að skýra þetta var fátt um svör. Sem betur fer komst nefndin að þeirri niðurstöðu að fella a-lið 1. gr. brott. Þetta var eftir ábendingar frá IMMI m.a. og eftir umræðu nefndarinnar um þetta atriði þar sem þetta er í raun og veru aðeins flóknara mál en höfundar frumvarpsins kannski ætluðu sér. Þetta er atriði sem er betra að útkljá í betra næði og kannski ekki endilega í samhengi við t.d. b-lið frumvarpsins. Ég held að ég hafi þá komið að mínum fyrirvörum um málið.

En fyrst við erum að tala um höfundarétt þá finnst mér ég verða að nýta tímann sem ég hef til þess að ræða um hv. þingmann fyrrverandi sem hét Tryggvi Bjarnason og var langalangafi minn, þ.e. afi afa míns í beinan karllegg. Hann var þingmaður frá árinu 1911–1913. Ég nefni þetta ekki bara vegna þess að hann var langalangafi minn, mér finnst það bara svo skemmtilegt vegna þess að við erum að ræða um höfundarétt. Mig langar að hafa þetta í ræðum Alþingis. Hann fór af þingi 100 árum áður en ég steig á þing. Þegar ég fór að fletta kallinum upp kom í ljós að hann hafði lagt fram eitt frumvarp og bar það heitið Prentsmiðjur, sem mér þótti áhugavert verandi pírati og allt það og mikið í þessari upplýsingatækni. Ég fékk upplýsingasvið til að senda mér afrit af frumvarpinu sem hann lagði fram. Þá kom í ljós að frumvarpið var ætlað til þess að hvert einasta amtsbókasafn og héraðsbókasafn fengi eitt ókeypis afrit af hverri einustu bók sem væri prentuð í landinu. Og eins og má ímynda sér þegar kemur að höfundarétti verða menn galnir við að heyra svona hugmyndir. Mig langar að lesa örstutt það sem kemur fram í lokaræðu hv. þáverandi þingmanns Jóns Ólafssonar er hann var að svara langalangafa mínum. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég vona að það reynist sannmæli sem stendur í Ísafold í dag um þetta mál. Þeir þingmenn sem vilja koma allri bókaútgáfu hér á landi fyrir kattarnef greiða þessu fráleita nýmæli atkvæði en aðrir ekki.“

Mig langaði til þess, þar sem ég býð mig ekki aftur fram til þings á næsta kjörtímabili og mun brátt halda mína síðustu ræðu seinna í dag, að koma þessu að. Þetta sýnir að þegar kemur að höfundalögum og höfundarétti hafa alltaf verið þessar áhyggjur, að allar svona breytingar muni ganga af einhverjum iðnaði dauðum. Það gerist einfaldlega ekki. Það er ekki þannig. Auðvitað verða breytingar, þær eru á stundum mjög erfiðar, en þrátt fyrir að í dag fái bókasöfn ókeypis eintök af bókum, þá hefur samt sem áður ekki allri bókaútgáfu hér á landi verið komið fyrir kattarnef. Þetta er staðreynd, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ég ætla að ljúka ræðunni á þeim nótum með þessari áminningu frá forföður mínum sem ég þakka fyrir samstarfið í þessu tilfelli en bið að öðru leyti fólk að íhuga til enda gagnrýni sína á stefnu Pírata í höfundaréttarmálum.