145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

aðgerðir gegn skattundanskotum.

[10:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst örstutt um tekjur ríkissjóðs, skatttekjur og aðrar tekjur. Þær hafa farið mjög vaxandi, þær hafa vaxið ár frá ári. Við höfum lækkað skattprósentuna í tekjuskattinum, sérstaklega á lágtekju- og millitekjufólk, en samt hafa tekjurnar af tekjuskattinum skilað sér sérstaklega vel. Við höfum líka gert átak til að styrkja virðisaukaskattskerfið, við höfum lækkað prósentuna niður í það lægsta sem hún hefur verið frá því að kerfið var innleitt, 24% virðisaukaskattur er sá lægsti sem við höfum nokkru sinni haft, en virðisaukaskattskerfið er að skila mjög auknum tekjum vegna þess að við höfum breikkað skattstofnana og afnumið undanþágur.

Skatttekjur skila sér almennt vel á Íslandi og rekstur ríkissjóðs endurspeglar það. Við erum með frumjöfnuð sem er með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Það er jöfnuður í ríkisfjármálum fyrir fjármagnsliði. Það breytir því ekki, sem hv. þingmaður bendir á, að við vitum af skattsvikum, við vitum af undanskotum, við vitum af lögbrotum sem ávallt þarf að fylgjast með og taka á. Svarta hagkerfið er of stórt. Við í ríkisstjórninni höfum séð til þess að þeim málum sé sinnt með því að tryggja nægilegar fjárveitingar til þeirra embætta sem þessum verkefnum sinna. Að einhverju leyti held ég að ástæða sé til þess að spyrja sig hvort að þau embætti hafi verið upptekin á undanförnum árum í vissum eftirhrunsmálum. Það hefur verið mjög mannaflafrek og tímafrek vinna, en við vitum hins vegar af því að í einstaka tilvikum hafa verið gerð átök, ég nefni sem dæmi átök vegna svartrar vinnu í iðnaði á Íslandi með vettvangsheimsóknum, ég nefni líka sérstaka skoðun á Airbnb-útbreiðslunni sem hefur verið mjög til umræðu. Ég er þeirrar skoðunar að við verðum einfaldlega að tryggja að við séum með fullfjármögnuð embætti sem hafi svigrúm, tíma og mannskap til að sinna eftirlitinu.