145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[11:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um tildrög þess að meiri hlutinn ákveður að leggja til breytingu á frumvarpinu sem ráðherra mælti fyrir, þ.e. þá breytingu að víkkun náttúruverndarlaganna frá 1999 eigi ekki við leyfi sem veitt eru eftir 1. desember 2017 en ekki ótímabundið eins og lagt var til. Ég vil spyrja hv. þingmann um það hver voru tildrög þess að það varð niðurstaða nefndarinnar og biðja hann um að gera Alþingi grein fyrir rökum iðnaðarráðuneytisins þar að lútandi.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann varðandi stjórnskipuleg álitamál. Nú hefur það komið fram að menn hafi áhyggjur af því að hér sé með afturvirkum hætti verið að grípa inn í lögmætt ferli, einnig að með sértækum lögum sé verið að víkja til hliðar kærurétti sem þar með sé kippt úr sambandi og með sértækum lögum bundinn endi á málarekstur sem sannarlega stendur yfir. Spurt er hvort hv. þingmaður telji að öllum álitamálum sé svarað þar að lútandi.

Loks vil ég spyrja hv. þingmann um það að fram kom að LOGOS gerði minnisblað varðandi Árósasamninginn og taldi að frumvarpið færi ekki á svig við þann samning, síðan kom í ljós fyrir nefndinni að LOGOS hafði einungis fjallað um 1. gr. frumvarpsins en ekki 2. gr. Við getum farið betur yfir það í síðara andsvari. En það sem lýtur að Árósasamningnum í málinu er engan veginn fullnægjandi hvað varðar sérfræðinga.