145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[18:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs út af andsvörum hv. þm. Frosta Sigurjónssonar því að þarna gekk hann nú lengra í forsjárhyggju en ég hef oft heyrt hann tala á fundum efnahags- og viðskiptanefndar þar sem hann ætlar að skipta sér af lífi venjulegra borgara í þessu landi. Það er nefnilega ósköp einfaldlega þannig að lánaviðskipti eru einn af grundvallarþáttum í eðlilegu lífi fólks, að fólk geti tekið lán, og hver sá sem heldur að hann geti ákveðið hvers konar lán aðrir eiga að taka er örugglega ekki maður til þess. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur hér opinberað það í andsvari sínu að hann hefur örugglega ekkert vit á því sem hann er að fjalla um ef hann heldur að hann geti ákveðið fyrir venjulegt fólk hvers konar lán það má taka. Hér eru búnar til einhverjar aldurstengdar reglur vegna verðtryggðra lána eða lána sem taka mið af mældri verðbólgu, en það má ekki gera það vegna þess að hv. þingmanni líkar það ekki.

Hvers yfirgangur, frekja og dónaskapur er þetta í einkamál annarra og viðskipti venjulegs fólks við lánastofnanir? Það kemur hv. þingmanni bara nákvæmlega ekkert við hvaða lánaform menn velja.

Hv. þingmaður, ég er að vitna í andsvar þitt núna áðan. Ég vona að hv. þingmaður muni alla vega síðustu tíu mínútur.

Aldurstengd ákvæði í lánum. Ég hef aldrei, aldrei í langri sögu sem ég man, og er búinn að skoða söguna nokkuð langt aftur í tímann — ég er búinn að skoða hana allt aftur til aldamótanna 1900 frá því að lög nr. 1 árið 1900 voru samþykkt, lög um stofnun veðdeildar við Landsbanka Íslands, þar sem segir eitthvað á þá leið að stofna skuli veðdeild til fasteignalána með vægum vöxtum, sem var vissulega göfugt markmið. Enginn getur borið það á mig að ég hafi einhvern tímann talað um háa vexti, en ég hef hins vegar oft talað um að það sé eðlilegt afgjald af lánsfé.

Í þessari löngu sögu sem ég er búinn að athuga, alla 20. öldina og fram að þessum tíma, hef ég aldrei sé aldurstengingu lána. Það sem menn hafa verið að horfa í í eðlilegum lánaviðskiptum er endurgreiðsla lána. Getur viðkomandi borgað? Ef hann getur ekki borgað, eru líkur á því að veðandlagið dugi fyrir endurgreiðslu lánsins? Það er nákvæmlega það sem ég tel að menn eigi að horfa í hér, það er endurgreiðslan sem skiptir máli. Í öðru lagi kann að vera að hafa þurfi veðið, sem er þá annar hluti, til íhugunar. En það bara samningsatriði milli lánastofnunar og lántaka, ef samningar takast geta hv. þingmenn ekkert verið að skipta sér af því og þóst hafa vit á því að taka megi annars konar lán. Ég hef bara aldrei heyrt meira rugl. Þetta er meira rugl en hefur oft komið fram í þessum þingsal og hef ég þó heyrt ýmislegt og sérstaklega þegar framsóknarmenn eiga í hlut.

Svo er hér langur fyrirlestur um einhverja hugleiðingu um stýrivexti. Stýrivextir Seðlabankans taka á því sem kalla má styttri enda vaxtarófsins, þeir taka á skammtímavöxtum. Þeir geta aldrei náð inn á lengri endann, enda held ég engin lán séu eins stabíliserandi fyrir hagkerfi og jafngreiðslulán þar sem raungreiðsla er jöfn út allan lánstímann.

Lán með breytilegum vöxtum, þar sem breytileikinn getur verið mikill og greiðslubyrði er þar af leiðandi enn þá breytilegri, geta verið sveifluvekjandi og haft verulega slæm áhrif á hagkerfið.

Ég tel að þetta frumvarp í heilu lagi standist enga skoðun og eins og ég sagði í nefndaráliti mínu sé ég bara ekki hverju það á að ná fram. Það sem máli skiptir er að lántaki og lánveitandi geti samið sín á milli. Lög um vexti og verðtryggingu eiga að taka á þeim atriðum sem varða vexti, eins og fyrsta vaxtadegi, hvenær skuld ber dráttarvexti, eða hugsanlega breytileika láns, og ef það tekur breytingum eftir einhverjum breytistærðum við hvað skuli þá miða, ef lán eru t.d. gengistryggð hvaða gengisskráningu skuli miða við í breytileikanum o.s.frv. Hér eru menn komnir út í tóma vitleysu og lengra en oft áður.

Í athugun minni á síðustu öld man ég eftir því að árið 1960 fluttu framsóknarmenn þess tíma frumvörp til laga um að lögbinda vexti á fasteignalánum og lögbinda vexti á afurðalán. (Gripið fram í.) Vandamálið er nefnilega að nokkrir þingmenn hafa aldrei skilið hlutverk sitt. Hér voru ríkisbankar og þá sátu þingmenn í bankaráðum vegna þess að þeir vildu hafa afskipti af bönkunum. Þingmenn sem hafa verið að tala um sjálfstæði seðlabanka hafa aldrei viljað sleppa takinu af Seðlabankanum, þeir hafa aldrei viljað sleppa takinu af vaxtaákvörðunum. Það er ósköp einfaldlega þannig að vextir ákvarðast eftir því sem fólk vill spara og eftir því sem fólk vill taka lán, þar mætast aðilar. Það kann að vera að samkeppni sé ekki mikil hérna, en það er bara allt annað mál og kemur lögum um vexti og verðtryggingu ekkert við. Það þarf að auka samkeppni á lánamarkaði, en að fara að ákvarða það hér að maður megi taka önnur lán — ég hef aldrei vitað meiri ofstopa í umgengni við annað fólk. Ef ég færi nú að ákveða það hvað hinn og þessi mætti taka af lánum.

Nú hef ég haft þann starfa að vera bankaútibússtjóri og stundað lánastarfsemi. Ég reyndi að tryggja eitt í mínum störfum; að bankinn fengi greitt til baka og ég reyndi að horfa til þess hver væri greiðslugeta viðkomandi sem tók lánið. Það er enn þá í mínum kolli og ég ætla aldrei að bakka frá því að ef ég ætti að fara að ákveða hvort viðkomandi keypti fyrir lánið bíl eða sófasett þá kom það mér bara ekkert við, bara nákvæmlega ekkert. Svona forsjárhyggja — ef viðkomandi vill flýta hamingju sinni með því að taka lán er það allt í lagi. En að þingmenn fari að ákvarða það — nei. Og með þeirri forsjárhyggju sem kom hér fram í andsvari hv. þingmanns — ég held að eina glóran sem komið hefur fram hér fyrir utan ýmislegt — jú, það kom hér margt fróðlegt fram hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur og ég þakka nefndarálit hennar og sömuleiðis nefndarálit Katrínar Jakobsdóttur. En það er eitt sem stendur eftir sem þarf að gera, það þarf að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar. Ég hef lokið máli mínu.