145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

yfirvofandi kennaraskortur.

[10:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Hér er opnað á mjög mikilvægt mál. Hvað varðar þær aðgerðir sem nú þegar hefur verið gripið til þá er það rétt, sem hv. þingmaður nefnir, að laun kennara hafa hækkað. Ég vil nefna tiltölulega nýgerða kjarasamninga við framhaldsskólakennara þar sem laun þeirra voru hækkuð umtalsvert. Í ljósi verðbólguþróunar á samningstímanum er mér til efs að kaupmáttur kennaralauna hafi nokkurn tímann vaxið jafn mikið, í það minnsta í langa tíð, og gerst hefur hér hvað varðar laun framhaldsskólakennara.

Það er alveg klárt mál, og ég held að það skilji það allir, að launaþátturinn skiptir gríðarlega miklu máli. Þessi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á að laun kennara yrðu hækkuð og auðvitað var það umdeilt á sínum tíma. Ég man vel eftir umræðu hér í þingsal og í samfélaginu, þegar þeir kjarasamningar voru gerðir við framhaldsskólakennara, um það hvort ekki hefði verið gengið of langt. Ýmsir þeir sem voru í forustu fyrir verkalýðshreyfingu og atvinnurekendur voru þeirrar skoðunar að gengið hefði verið of langt í þeim kjarasamningum og laun kennara hækkuð of mikið. Ég var ósammála því. Ég taldi nauðsynlegt að hækka laun kennara með þeim hætti sem gert var.

Ég bendi á, virðulegur forseti, að með þeirri ákvörðun að fara úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi á framhaldsskólastiginu erum við líka — þó að það séu auðvitað alveg sérstök rök fyrir þeirri ákvörðun — að bregðast við þeim vanda sem hv. þingmaður nefnir. Aldurssamsetning kennara er óhagstæðari en áður hvað það varðar að það eru fleiri eldri kennarar, en með því að við förum úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi léttir á þeim þættinum í framhaldsskólunum. Kerfisbreytingar á framhaldsskólastigi og umtalsverðar launahækkanir, sem sættu reyndar gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar og fleiri, hafa mætt þessu ástandi að nokkru.

Áfram verður að halda hvað varðar (Forseti hringir.) þessa þróun, en ég mun koma að fleiri þáttum í síðara svari mínu.