145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

yfirvofandi kennaraskortur.

[10:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sagði að það væri ekki síst verkefni ríkisins að útvega fjármagn fyrir grunn- og leikskólana. En það er rangt. Þessi skólastig eru á forræði sveitarfélaganna. Hv. þingmaður þekkir það auðvitað. Ríkið semur ekki við kennara á því skólastigi og rekur ekki þessar stofnanir, það eru sveitarfélögin. (Gripið fram í.) Nei, ríkisvaldið er eitt, það er hið opinbera. Hið opinbera skiptist í ríkisvald annars vegar og sveitarfélögin hins vegar og það eru sveitarfélögin sem með samningum hafa þessa skóla, sjá um rekstur þeirra og kjarasamninga.

Ég vil nefna hér eitt verkefni sem skiptir máli hvað varðar spurningu hv. þingmanns. Það liggur fyrir að grunnskólinn á Íslandi er í öllu alþjóðlegu samhengi mjög vel fjármagnaður. Aftur á móti höfum við verið að skoða, og fengið erlenda aðila í samstarf með okkur til þess, skólastefnuna „Skóli án aðgreiningar“, hvernig gengið hefur með innleiðingu þeirrar stefnu, hvort við séum að fjármagna skólana nægilega vel í ljósi þeirrar stefnu sem þar liggur fyrir. Aðstaða kennara til þess að framfylgja því skiptir máli, það er eitt af því sem við erum að skoða, þ.e. starfsumhverfi kennara í ljósi þeirrar stefnumótunar. Það er eitt af því sem við þurfum að fást við. (Forseti hringir.)

Þetta er vissulega, og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, vandamál, sérstaklega hvað varðar grunnskólana og leikskólana. Og það þarf að mæta því hér á næstu árum.