145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

áhrif málshraða við lagasetningu.

[11:20]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að vekja máls á þessu því að þetta er nokkuð sem mörgum þingmönnum held ég hefur verið hugleikið um allnokkra hríð. Við vitum auðvitað að vönduð lagasetning er grundvallaratriði í störfum löggjafarsamkundu eins og Alþingis Íslendinga og það er full þörf á því annars vegar að festa betur málsmeðferðarreglur vegna lagasetningar hér. En það er líka full þörf á því að bæta menningu hér, starfsaðferðir, því að starfsreglur og lög um setningu laga eru ekki nóg. Því miður hefur viljað brenna við á síðustu árum og við höfum orðið vitni að núna að hröð málsmeðferð fer oft af stað skömmu fyrir þinglok. Mann grunar stundum að það sé líka meðvituð aðferð til að ná fram ákveðinni niðurstöðu mála í flýti og við óljósar aðstæður, þannig að tímaskortur verði til þess að menn skoði ekki mál til hlítar og það sé hægt að fá sitt fram. Týpískt dæmi um þetta er jarðgangakapallinn sem alltaf fer af stað rétt fyrir þinglok, fyrir lok þessa kjörtímabils, fyrir lok síðasta kjörtímabils og kjörtímabilsins þar á undan. Þetta eru starfsaðferðir sem eru ekki af hinu góða, virðulegi forseti, og eru ósiður sem þingmenn allra flokka hafa tamið sér en kunna að stafa af því að kannski eru málsmeðferðarreglur ekki nægilega skýrar.

Ég ætla að koma betur að ýmsum efnisatriðum þessarar umræðu í seinni innkomu minni.