145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:00]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum að klára þetta stóra og mikilvæga mál. Hér erum við að tryggja að einstaklingur geti fengið allt að því 5 millj. kr. til að kaupa sér húsnæði, eða par allt að því 10 millj. kr. Þetta er hluti af samkomulagi sem var gert við aðila vinnumarkaðarins þar sem við mörkuðum húsnæðisstefnu til framtíðar. Lykilþáttur til þess að fólk geti keypt sér húsnæði er annars vegar að tryggja að það hafi svigrúm til þess að spara — við gerðum það með þeim frumvörpum sem við samþykktum og gerðum að lögum nú í vor — með því að bæta stöðuna á leigumarkaðnum og síðan má segja að þetta sé lokahnykkurinn þegar við erum að búa til umhverfi þar sem fólki verður gert kleift að spara fyrir húsnæði með stuðningi síns atvinnurekanda og hins opinbera. Það er einkar jákvætt þegar við horfum til framtíðar.