145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:24]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir andsvarið og samvinnu í nefndinni. Ég held að mjög mikilvægt sé að áður en við veitum heimildir til að samkeyra mjög viðkvæmar skrár — eins og í því tilfelli þegar við tölum út frá því sem maður las frá ráðuneytinu að í raun og veru ætti að veita aðgengi að öllum skrám er lúta t.d. að því hvernig fólk neytir áfengis. Ég held að nánast allir Íslendingar neyti áfengis, þannig að þá er þetta orðið mjög víðtækt.

Ég er alltaf svolítið hrædd við forvirkar rannsóknarheimildir. Það verður að segjast eins og er. Ég spurði lögregluyfirvöld ítrekað eftir þessu á síðasta kjörtímabili að þegar þarf að falast eftir einhverju, hvernig ætti að nota það nákvæmlega og hvort þeir hefðu einhver dæmi um að það hefði getað nýst þeim, þá verður bara að segjast eins og er að þau svör sem ég fékk voru ekki mjög sannfærandi.

Við erum nú þegar með alveg ofboðslega góðar varnir þegar kemur að aðgengi að landinu. Við erum náttúrlega eyja úti í ballarhafi og ekkert sérstaklega auðvelt að koma hér á fót vélhjólagengjum. Sú ógn, sem kölluð var, var notuð á tímabili til að reyna að fá forvirkar rannsóknarheimildir. Framtíðarsýnin varðandi þetta hlýtur að fela það í sér að farið verði mjög ítarlega yfir hvað þetta þýðir. Ég held að mjög margir hafi ekki djúpstæðan skilning á því hvað þetta geta oft verið mikil inngrip í friðhelgi einkalífs. Fólk upplifði það pínulítið þegar einhverjir hökkuðu sig inn í Vodafone, SMS-skilaboðin, og sá að hver sem er gæti fengið aðgengi þeim og mjög persónulegum samskiptum var dreift út um allt. Ég er búin með tíma minn, fæ að klára seinna.