145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á Íslandi stendur yfir barátta um það hvort lítill hópur eigi áfram að taka til sín miklu meira en aðrir, hvort útgerðaraðallinn og Panama-yfirstéttin eigi áfram að efnast meira á kostnað hinna. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur engar áhyggjur af þessari stöðu, finnst nóg að gert til þess að auka jöfnuð í samfélaginu. Við sjáum það á hverjum einasta degi að hinir ríku verða ríkari og misskipting er að aukast dag frá degi. Um þetta verður meðal annars kosið, virðulegur forseti, um frelsi fárra til að græða, til að græða á náttúruauðlindum, til að græða á velferðarkerfi, til að græða á veiku fólki, eða frelsi samfélagsins alls til að njóta menntunar, til að njóta velferðar, til að njóta heilbrigðis óháð efnahag.