145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka Páli Jóhanni Pálssyni fyrir gott samstarf. Það hefur verið ánægjulegt og lærdómsríkt að kynnast honum og starfa með honum og hann er einn af þessum prýðiseinstaklingum sem vinna sín störf af samviskusemi. Það er líka kostur við hv. þingmann að það er stutt í húmorinn sem skiptir gríðarlega miklu máli í öllu samstarfi.

Virðulegi forseti. Nú höfum við áhyggjur af háu gengi krónunnar sem getur haft mjög neikvæð áhrif á útflutningsgreinar eins og ferðaþjónustuna, sjávarútveginn, iðnaðinn og hugverkaiðnaðinn svo eitthvað sé nefnt. Þær leiðir sem við höfum til þess að reyna að halda aftur af þessu er að Seðlabankinn reynir að vera með inngrip á markaðinn með tilheyrandi kostnaði. Ég held að við þurfum að líta á þessa hluti til lengri tíma. Okkar stærstu fjárfestar eru lífeyrissjóðirnir sem fara með okkar fjármuni. Það er mjög mikilvægt að þeir fjárfesti meira í útlöndum. Í fyrsta lagi er það einföld áhættudreifing. Þeir sem eiga peningana í lífeyrissjóðnum eiga allt sitt hér, hér er vinnan þeirra, húsnæði og jafnvel annar sparnaður. Síðan er auðvitað augljós hætta á samþjöppun á innlendum markaði þegar þessir fjárfestar eru jafn stórir eins og raun ber vitni.

Ég vek athygli á því að norski olíusjóðurinn hefur það sem stefnu, og það er stefna sem Norðmenn mörkuðu, að fjárfesta eingöngu fyrir utan Noreg, m.a. af þeim ástæðum sem ég nefndi hér, áhættudreifingu og til þess að vera ekki fyrirferðarmiklir innan lands.

Þegar við þurfum á lífeyrinum að halda þá er það að stórum hluta til þess að greiða fyrir erlendar vörur. Við verðum að líta á þessa hluti til lengri tíma. Það er alveg ljóst að evrumarkaðurinn er mjög lítt fýsilegur fyrir fjárfesta eins og er, en það eru fleiri markaðir til. Ég tel að við eigum að ræða það (Forseti hringir.) af fullri alvöru hvort ekki sé skynsamlegt að setja gólf á fjárfestingar lífeyrissjóða og setja okkur markmið (Forseti hringir.) til lengri tíma um að fjárfestingar þeirra og eignir verði í miklu hærra hlutfalli í útlöndum.


Efnisorð er vísa í ræðuna