145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:22]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir andsvarið. Ég íhugaði það nú aðeins fyrir þessa breytingartillögu að hún mundi jafnvel leiða til stærri umræðu en efni standa til. Auðvitað greinir flokka og þingmenn á pólitískt varðandi lánafyrirkomulag á markaði, verðtryggð og óverðtryggð lán. Mín skoðun í þessu er sú að verðtrygging sé ekkert annað en vextir. Lán eiga bara að kosta það sem lánveitandinn metur að hann þurfi að leggja á þá vöru sem hann selur hverju sinni. En það er bara miklu stærri umræða en hér er.

Efnisrökin. Það er nú mjög ítarleg greinargerð með frumvarpinu. Þetta kallar hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason summukenningu, þegar verið er að skutla verðtryggðum vöxtum aftur fyrir höfuðstólinn og geyma til lengri tíma. Þá hegða þessi lán sér eðlilega öðruvísi, þessi jafngreiðslulán. Þau dreifast yfir lengri tíma og safnast þar af leiðandi upp. Það er rökstutt ítarlega í greinargerð. Þess vegna er þetta eðlisbreyting á málinu. Markmiðið er að hvetja til töku óverðtryggðra lána. Það er bara þannig í frumvarpi hæstv. ríkisstjórnar. Með þessari breytingartillögu erum við að fara í allt önnur markmið. Þess vegna eðlisbreytir það frumvarpinu. Það eru efnisrökin í þessu máli. Við erum komin út í miklu stærri umræðu en efni standa til, met ég.