145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:15]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann vel að meta þennan heiðarleika sem skín af hv. þingmanni, enda hefur hann hlotið gott orðspor fyrir að vera mjög heiðarlegur og traustur maður. Það sem ég síðan skil heldur ekki, ég er bara að kynna mér þetta mál eftir bestu getu hér í þingsal, er sér í lagi ellilífeyrisþegar. Við erum að tala um fólk sem hefur unnið allt sitt líf og hefur áunnið sér réttindi hér á landi. Af hverju er verið að mismuna því eftir hjúskaparstöðu? Af hverju eru þessar skerðingar eiginlega til staðar? Er það fólk ekki búið að ávinna sér ákveðin réttindi? Er almenn ánægja með það að meiri hækkun sé á heimilisuppbótinni á sama tíma og skerðingarhlutfallið er að hækka meðal gesta nefndarinnar? Nú sit ég ekki í þessari nefnd. Mér finnst svo sérstakt að það sé bara verið að hækka heimilisuppbótina til þess að brúa bilið upp í 280 þúsund kallinn fyrir einstæðinga en ekki fyrir venjulegan eldri borgara sem er í sambúð. Ekki að það sé endilega eitthvað venjulegra. Ég skil þessa hugsun einfaldlega ekki. Af hverju geta ekki allir, óháð hjúskaparstöðu, fengið það sem mundi vera lágmarkslaun fyrir 2017? Af hverju fá bara ekki allir 280 þúsund kall? Og mögulega eitthvað ofan á það ef það er dýrara að lifa. Af hverju er þessi mismunun viðhöfð? Ég á erfitt með að skilja þetta. Það verður að viðurkennast.